Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Hvannalindir

Hvannalindir eru gróðurvin í um 640 m hæð norðan undir Lindahrauni í skjóli af Lindafjöllum og Krepputunguhraunum að vestan og Kreppuhrygg að austan. Lindaá fellur úr suðri niður með hraunjaðrinum við Kreppuhrygg. Í Hvannalindum bætist henni Lindakvísl úr suðvestri þar sem kvíslin liðast milli gróinna bakka fram hjá stökum gíghól sem nefnist Lindakeilir.

Nafn sitt fá Hvannalindir af ætihvönn sem þar dafnar óáreitt af beit. Sem gróðurvin og vistkerfi eru Hvannalindir einstæðar á Íslandi, að mestu ótruflaðar af búfjárbeit frá því að land byggðist og umkringdar af auðn á alla vegu. Mest áberandi í gróðurþekjunni eru víðiflesjur og blómleg hvannstóð við hraunjaðra og fram með lækjum. Þar sem gróskan er mest við hraunjaðrana vaxa þó aðeins 32 tegundir blómplantna. Alls hafa sést um 30 fuglategundir í Lindunum og við tjarnir sunnan þeirra. Sex tegundir mega teljast árvissir varpfuglar: Heiðagæs, hávella, rjúpa, sendlingur, óðinshani og snjótittlingur.
Merkar friðlýstar þjóðminjar eru í Hvannalindum þar sem eru rústir útilegumannabæjar í jaðri Lindahrauns. Rústirnar fann Þorgils gjallandi (Jón Stefánsson) ásamt þremur öðrum Þingeyingum árið 1880 en Kristján Eldjárn rannsakaði þær sumarið 1941. Leiða menn getum að því að Fjalla-Eyvindur og Halla hafi hafst við í Hvannalindum 1767 og einhver ár þar á eftir uns þau fluttu í Eyvindarver við Þjórsá.

Gönguleiðir

HV1

Rústir

1,5 km báðar leiðir
1 klst.
Auðveld
Fram og til baka

Smáspölur er frá bílastæði við endann á Kreppuhrygg að norðurjaðri Lindahrauns. Þar austan við Lindaá eru í hraunbrúninni rústir útilegumannabæjar. Um tveggja kílómetra gönguleið er frá rústunum vestur með hraunjaðrinum, yfir melöldu og Lindakvísl að Lindakeili, sem er stakur strýtulaga móbergshóll rétt við akleiðina suðvestast á lindasvæðinu.

Hv2

Kreppuþröng

3 km
2 klst.
Krefjandi
Hringleið

Frá Kverkfjallaslóð í Hvannalindum liggur afleggjari suðaustur á bílastæði við norðurendann á Kreppuhrygg. Stutt ganga er upp á hrygginn þaðan sem er frábært útsýni yfir Hvannalindir og suðaustur yfir Lindahraun til Kverkfjalla. Stutt er þaðan austur að Kreppuþröngum þar sem Kreppa byltist í örþröngri rás.