Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Atvinnustefna

Frá því þjóðgarðurinn var stofnaður, árið 2007, hefur þurft að bregðast við vaxandi fjölda erinda frá aðilum sem vilja stunda atvinnustarfsemi með aðstöðu eða aðbúnað innan þjóðgarðsins. Í því ljósi voru skilyrði um samninga um atvinnutengda starfsemi sett í lög þjóðgarðsins árið 2016 og atvinnustefna staðfest 2019.

Sú atvinnustefna sem hér er sett fram lýsir afstöðu þjóðgarðsins til tiltekinna grundvallaratriða sem varða samstarf við atvinnulífið en auk hennar þarf reglugerð að innihalda ákvæði sem varða málsmeðferð. Einnig er mikilvægur grunnur í stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins því þar er skilgreint hvernig þjónustu og aðgengi í þjóðgarðinum skuli háttað, þar á meðal hámarksumfang starfsemi á hverjum stað, ef ástæða er til.

Í atvinnustefnunni eru dregnar upp meginlínur en ýmislegt þarfnast nánari útfærslu og samráðs við hagaðila. Í þeim efnum þarf að tryggja sanngjarna niðurstöðu fyrir þá sem þegar veita þjónustu innan þjóðgarðsins.

Atvinnustefna Vatnajökulsþjóðgarðs var samþykkt af hálfu þjóðgarðsins 24. júní 2019.

Ferlið við gerð atvinnustefnunnar

Sækja um atvinnutengda starfsemi í Vatnajökulsþjóðgarði

Samkvæmt 1. mgr. 32. reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 300/2020 er óheimilt að reka atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum án samnings um slíka starfsemi við Vatnajökulsþjóðgarð, sbr. einnig 15. gr. a. laga um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007. Atvinnutengd starfsemi í Vatnajökulsþjóðgarði er skilgreind í reglugerðinni sem þjónusta sem aðrir en þjóðgarðurinn sjálfur bjóða gegn þóknun innan marka þjóðgarðsins. Hefðbundin landnýting innan þjóðgarðs og starfsemi henni tengd telst ekki atvinnutengd starfsemi. Í viðauka aftast í verklagsreglu VLR-049 eru tilgreind dæmi um hvaða starfsemi fellur undir kröfu um samning við þjóðgarðinn og hvaða starfsemi er undanþegin.

Samningar um atvinnutengda starfsemi

Samkvæmt lögum um Vatnajökulsþjóðgarð eiga allir þeir sem reka atvinnutengda starfsemi í Vatnajökulsþjóðgarði að gera samning við þjóðgarðinn þar sem sett eru skilyrði fyrir starfseminni m.a. með tilliti til verndar umhverfis og öryggis gesta. Þann 1. ágúst 2023 var auglýst eftir umsóknum um gerð samninga um íshellaferðir og jöklagöngur á Breiðamerkurjökli (vestan og austan Jökulsárlóns), Falljökli/Virkisjökli og Skeiðarárjökli.

Breyting á reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð.

Drög að breytingu á reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í júní 2019. Breytingin miðar að því að setja nánari ákvæði um útfærslu ákvæða um samninga vegna atvinnutengdrar starfsemi í þjóðgarðinum og leyfisveitingar. Í reglugerðardrögunum er atvinnutengd starfsemi skilgreind, kveðið er á um málsmeðferð, samningsgerð og eftirlit og greinarmunur gerður á milli starfsemi sem nauðsynlegt er að takmarka að umfangi og starfsemi sem ekki er nauðsynlegt að takmarka að umfangi. Ráðuneytið áætlar að reglugerðin verði gefin út vorið 2020.

Með útgáfu reglugerðarinnar skapast betri grundvöllur undir stjórnsýslu Vatnajökulsþjóðgarðs er snýr að atvinnutengdri starfsemi og mun allt verklag innan þjóðgarðsins byggja á ákvæðum hennar.

Spurt og svarað