Fellsfjara
Fellsfjara er staðsett við Jökulsárlón sunnan við þjóðveg 1. Fellsfjara er vinsæll áfangastaður ferðamanna en þar er að finna ísjaka úr Breiðamerkurjökli og Jökulsárlóni sem enda oft á tíðum á svartri ströndinni.
Fellsfjara er í um 80 kílómetra fjarlægð vestur af Höfn í Hornafirði. Gott aðgengi er að bæði Eystri og Vestri Fellsfjöru, en malbikaður vegur og bílastæði eru beggja vegna við Jökulsá. Staðurinn er stórbrotinn náttúruperla þar sem andstæður svartra sanda og blárra ísjaka mætast. Fjaran er aldrei eins dag frá degi og eru ísjakarnir síbreytilegir.
Ekki er mælt með því að labba yfir brúna yfir Jökulsá. Ef lagt er á bílastæðunum í Fellsfjöru liggur góður göngustígur undir brúna, báðu megin við ána, að Jökulsárlóni.
Vissir þú?
Að Fellsfjara þekkist vel sem ,,Diamond Beach'' og fékk það viðurnefni af ferðafólki og öðrum gestum svæðisins?
Heimamenn og starfsmenn kalla hana það ekki í daglegu tali en hið rétta nafn er Eystri-Fellsfjara annars vegar og Vestri-Fellsfjara hins vegar.
Mynd: (Tom Vining / Unsplash)
Gönguleiðir
Eystri-Fellsfjara
Falleg gönguleið sem liggur um Eystri-Fellsfjöru þar sem virða má fyrir sér ísjaka í svörtum sandi.
Jökulsárlón
Gengið er frá aðalbílastæði í norður í átt að jöklinum og upp á jökulruðninginn sem er kallaður Helguhóll.