Vatnajökulsþjóðgarður heyrir nú undir Náttúruverndarstofnun. Heimasíða stofnunarinnar er í vinnslu. Lesa meira

Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Jökulsárlón

Um Jökulsárlón og nágrenni
- Komdu í heimsókn

Sjónarspil hörfandi jökla, lóna og ísjaka dregur ferðafólk hvaðanæva að. Jökulsárlón og Fjallsárlón eru þar af leiðandi með vinsælli ferðamannastöðum landsins. Strandlengjan frá Kvíármýrarkambi og alla leið að Höfn býður upp á einstaka nálægð við Vatnajökul. Jökulmótað landslagið og fjaran skapa aðstæður fyrir fjölbreytt dýralíf, rannsóknir og ferðamennsku.

Aðgengi, árstíðir og þjónusta

Jökulsárlón og Fellsfjara á Breiðamerkusandi eru staðstett alveg við þjóðveg 1 sitthvoru megin við hann. Fjallsárlón er aðeins vestar en Jökulsárlón og eru jökullónin á þessu svæði eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna sem leggja leið sína til Íslands. Svæðið er aðgengilegt allt árið um kring en þjóðvegur 1 liggur um Breiðamerkursand. Vatnssalerni eru við Jökulsárlón og Fjallsárlón ásamt einkareknum veitingasölum sem og fjölbreyttri árstíðabundin ferðaþjónusta.

Símanúmer landvarða á Breiðamerkursandi er: 842-4355

Fræðsla og upplýsingagjöf

Landverðir á Breiðamerkursandi sinna viðhaldi og eftirliti alla daga ársins við Jökulsárlón, Fellsfjöru og Fjallsárlón og eru einnig með eftirlit við íshella sem eru í Breiðamerkurjökli. Við bílastæðið í Eystri-Fellsfjöru stendur ljósmyndasýning með ljósmyndum úr Vatnajökulsþjóðgarði sem áhugavert er að skoða. Ef bílnum er lagt í því bílastæði er hægt að ganga undir brúnna sem liggur yfir Jökulsá og ganga gestagötuna. Á henni eru fræðsluskilti sem gestir og gangandi geta virt fyrir sér og lesið.

Fræðsludagskrá Vatnajökulsþjóðgarðs er í gildi yfir sumarið þar sem boðið er uppá fjölbreyttar göngur og fræðslu vítt og breitt um þjóðgarðinn. Hægt er að kynna sér fræðslugöngur sumarsins á Jökulsárlóni með því að ýta á hlekkinn.

Náttúra og saga
- fræðsla og uppgötvun

Þegar Vatnajökull hopar kemur nýtt land í ljós og breytingar verða á rennsli jökuláa. Þannig skapast aðstæður fyrir landnám lífs á víðáttumiklum söndum og jökulurðum. Á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs gefst lærðum jafnt sem leikum einstakt tækifæri til að fylgjast með náttúrulegri gróðurframvindu, landnámi dýra og mótun nýrra vistkerfa.

Lífbreytileiki

Svæðið einkennist af fjölbreytilegum vistkerfum. Á undirlendinu framan jökulsins eru sandar, graslendi og votlendi. Dýralíf endurspeglar gróðurfarið og fuglalíf er mjög auðugt á svæðinu. Sjaldgæfar tegundir verpa á svæðinu og er Breiðamerkursandur mikilvægt varpsvæði skúms, lóms, grágæsar og helsingja. Stór selalátur eru þar sem ár renna til sjávar.

Hörfandi jöklar

Óvíða er návígi við jökla jafn mikið og hraðar breytingar þeirra jafn sjáanlegar og sunnan við Vatnajökul. Mikil áhersla er lögð á fræðslu um loftslagsbreytingar á svæðinu og er einnig hægt að skoða efnið hér nánar.

Skaftafellsstofa

Skaftafellsstofa er gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs á suðursvæði. Gestastofan er opin allan ársins hring. Þar veita landverðir og þjónustufulltrúar gestum fræðslu og upplýsingar um náttúrufar Skaftafells, gönguleiðir, gistingu og afþreyingu í næsta nágrenni. Í Skaftafellsstofu er minjagripaverslun með áherslu á fræðslu og handverk úr byggðarlaginu. Fyrir framan Skaftafellsstofu er fræðslutorg þar sem lögð er áhersla á góða upplýsingagjöf um svæðið ásamt því að fræða um hið einstaka samspil mannvistar og náttúru í Skaftafelli og áhrif loftlagsbreytinga á mannlíf og umhverfið.