Vatnajökulsþjóðgarður heyrir nú undir Náttúruverndarstofnun. Heimasíða stofnunarinnar er í vinnslu. Lesa meira

Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Opna

Eldgjá & Langisjór

Fögrufjöll, Snorri Baldursson

Um Eldgjá og Langasjó
– Komdu í heimsókn

Eldgjá er hluti af 75 km langri gossprungu sem nær frá Mýrdalsjökli langleiðina að Vatnajökli en tilkomumesti hluti gjárinnar liggur við Fjallabaksleið nyrðri. Þar hafa landverðir Vatnajökulsþjóðgarðs aðsetur á daginn, veita gestum upplýsingar um svæðið, sögu þess, gönguleiðir og færð. Þaðan er vinsælt að ganga að Ófærufossi þar sem Nyrðri-Ófæra steypist ofan í gjána. Langisjór á engan sinn líkan á hálendi Íslands þar sem hann liggur fagurblár á milli tveggja móbergsfjallgarða, Breiðbaks og Fögrufjalla. Á sólríkum sumardegi jafnast fátt á við að renna fyrir bleikju í Langasjó, sigla á kajak, ganga um og njóta kyrrðar Fögrufjalla eða útsýnisins ofan af Sveinstindi.

Aðgengi, þjónusta & fræðsla

Landverðir við Eldgjá og Langasjó hafa aðsetur í Hólaskjóli skammt sunnan við Eldgjá. Þeir veita gestum upplýsingar um svæðið við þjónustuhúsið í Eldgjá eða við Ströngukvísl stærstan hluta dagsins. Jafnframt sinna þeir öllu svæði þjóðgarðsins milli Skaftár og Tungnaár. Vatnssalerni eru við þjónustuhúsið í Eldgjá og við suðurenda Langasjávar. Við Langasjó er boðið upp á tjaldsvæði með lágmarksþjónustu og þar hafa landverðir einnig aðstöðu en viðverutíminn er breytilegur.

Vegurinn inn að Eldgjá (F208) er einungis fær fjórhjóladrifnum bílum og ein óbrúuð á er á leiðinni (Strangakvísl). Að öllu jöfnu opnar vegurinn inn að Langasjó í byrjun júlí. Vegurinn er einungis fær fjórhjóladrifnum bílum og á honum eru nokkrar óbrúaðar ár. Við suðurenda Langasjávar er bátalægi, aðstöðuhús með salerni og einfalt tjaldsvæði á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs. Við hvetjum gesti til þess að kanna færð hjá landverði á gestastofu þjóðgarðsins á Kirkjubæjarklaustri áður en lagt er af stað og fá góð ferðaráð.

Fræðsludagskrá Vatnajökulsþjóðgarðs er í gildi yfir sumarið þar sem boðið er uppá fjölbreyttar göngur vítt og breitt um þjóðgarðinn. Hægt er að kynna sér fræðslugöngur sumarsins á vestursvæði þjóðgarðsins með því að ýta á hlekkinn.

Símanúmer landvarða við Eldgjá og Langasjó er 842 4379

Gisting

Frá Eldgjá er stutt í skála og tjaldsvæði í Hólaskjóli en þar er bæði hægt að gista í almenningi og í minni húsum. Í öllum húsum er rafmagn, vatnssalerni og heit sturta.

Við suðurenda Langasjávar er lítið tjaldsvæði á vikri, stutt er í vatnssalerni og rennandi vatn. Nánari upplýsingar eru hér á síðunni, hjá landvörðum á svæðinu og á Skaftárstofu. Milli Sveinstinds og Hólaskjóls liggur vinsæl tveggja til þriggja daga gönguleið. Á henni eru tveir gangnamannakofar sem gerðir hafa verið upp af Ferðafélaginu Útivist.

Annar er neðan Sveinstinds við Skaftá. Þar er svefnpláss fyrir 18 manns en vegna framburðar Skaftárhlaupa hefur tjaldsvæðið minnkað og aðeins er hægt að koma fáum tjöldum fyrir. Hinn skálinn er við Stóragil á Skælingum. Þar er gott tjaldsvæði og gistirými fyrir 16 manns.

Ferðafélagið Útivist sér um útleigu á þessum skálum og gestir eru hvattir til að hafa samband til að bóka gistingu.

Náttúra og saga
- fræðsla og uppgötvun

Eldgjá

Á árunum 934-940,stuttu eftir landnám, hófst hamfaragos í nokkrum lotum sem átti uppruna sinn í Kötlu. Norðaustur af eldstöðinni rifnaði upp mikil sprunga, Eldgjársprungan, sem er um 75 km löng og nær næstum jökla á milli. Skipta má gossprungunni í þrjá aðalhluta. Nyrst eru Kambagígar og gígar við Stakafell, sem ná allt norður að Tröllhamri. Á miðhluta sprungunnar er Eldgjá sjálf þar sem Fjallabaksleið nyrðri liggur um hana. Þar er sprungan stórbrotnust og í daglegu tali er átt við þann hluta sprungunnar þegar talað er um Eldgjá. Hér er gjáin um 600 m breið og 150 m djúp og um miðbik hennar steypist Nyrðri Ófæra ofan í gjána í hinum fagra Ófærufossi. Í botni Eldgjár rennur Nyrðri Ófæra til suðvesturs og leikur þar við gígaröð sem prýðir botn gjárinnar. Þrátt fyrir róandi nið árinnar er ekki erfitt fyrir vegfarandann að ímynda sér að þessi mikilfenglegi staður hafi orðið til við miklar náttúruhamfarir. Syðsti hluti Eldgjársprungunnar teygir sig undir Mýrdalsjökul við Öldufell en þaðan hefur Álftavershraun runnið.

Langisjór

Langisjór er um 27 km² stöðuvatn, er 20 km langur og ristir 74 metra niður þar sem hann er dýpstur. Á fyrri hluta tuttugustu aldar rann kvísl úr Skaftá í vatnið og þá var það jökullitað en er nú meðal tærustu fjallavatna á Íslandi. Talið er að smalar hafi fyrstir barið vatnið augum en þeir nefndu það Skaftárvatn. Síðar gaf Þorvaldur Thoroddsen því nafnið Langisjór sem hefur haldist síðan. Móbergshryggirnir í kringum Langasjó einkenna svæðið og eru einstakir á heimsvísu.

Hvítur jökullinn, blátt vatnið, mosagræn fjöllin, svartur vikurinn og upplifun endalausra víðáttu öræfanna er það sem gefur Langasjó og umhverfi hans sérstöðu. Þeir gestir okkar sem hugsa sér að ganga kringum Langasjó eru vinsamlega beðnir um að hlífa gróðrinum á svæðinu eftir fremsta megni, aðeins að ganga á þeim stígum sem fyrir eru og tjalda ekki á mosagróðrinum, frekar á vikrinum sem jafnar sig fyrr eftir átroðning.

Skaftárstofa

Skaftárstofa er glæsileg ný gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs við Sönghól á Kirkjubæjarklaustri við þjóðveg eitt. Þar er jafnframt upplýsingamiðstöð fyrir Skaftárhrepp. Á meðan unnið er að nýrri fræðslusýningu um þjóðgarðinn í rýmið býðst gestum að skoða sýninguna Vorferð frá Jöklarannsóknafélagi Íslands. Sýninginn var gerð í tilefni af 70 ára afmæli félagsins og varpar meðal annars ljósi á sögu félagsins, segir frá skálabyggingum, vorferðum á jökli, sporðamælingum, rannsóknarverkefnum, jöklabakteríunni og tímaritinu Jökli.